Verk í vinnslu

Sjónhending er kvikmyndaframleiðslufyrirtæki með aðsetur í Reykjavík. Við sérhæfum okkur í heimildarkvikmyndum og kynningarefni alls konar. Gunnlaugur Þór Pálsson aðalframleiðandi þess og leikstjóri hefur á undanförnum árum framleitt og leikstýrt fjórum heimildarkvikmyndum sem hafa beint kastljósinu að loftslagsvá samtímans.

Vatnajökull ( vinnutitill )

(Heimildarkvikmynd 120´)

VATNAJÖKULL
er skapandi heimildakvikmynd í fullri bíólengd (100-120 mínútna löng). Vatnajökull, skriðjöklar hans, eldfjöll og öræfi ásamt Vatnajökulsþjóðgarði er í aðalhlutverki. „Hvíti risinn“ þekur um 7,5% af flatarmáli Íslands og er því langstærsta náttúrufyrirbrigði landsins. Vatnajökull er um leið „eldjökull“ -eldvirknin á fjölmörgum svæðum undir íshettu hans leggur grunn að samspili andstæðra ógnarkrafta náttúrunnar -elds og ís sem er einstakt á heimsvísu.

Og nú á tímum hnattrænna loftslagsbreytinga sem ógna tilvist jökulsins, þá spyrjum við sveitunga hans og velunnara um nábýlið við jökulinn –við förum í smalaferðir með bændum, rannsóknaleiðangra með vísindamönnum, vettvangsferðir með landvörðum og finnum ógnarmátt jökulsins í smiðju listamanna.
Er íslenskt lífríki, landslag og/eða samfélag að kollsteypast í nánustu framtíð vegna hamfararhlýnunar? Hvað getum við gert til að forða því að svo verði?

Vatnajökull er stærsti jökull Jarðar utan heimskautasvæðanna og skiptir því alla heimsbyggðina máli. Hann er svo stór, margbrotinn og magnaður að það er nær ómögulegt að fanga hann allan í einni svipan, einni hugsun. Hin undurfagra hvíta ásýnd hans á líka sínar andhverfur, hann getur verið eyðandi afl sem hylur og kremur allt sem undir honum verður. Ís-landslag hans er eins framandi og óbyggilegt mönnum og hugsast getur. En þar finnum við líka ægifegurð sem á engan sinn líka, fegurð sem á uppsprettu sína í villtri, frjálsri, magnþrunginni náttúru.

Í hnotskurn, þá tendrar ægifegurð Vatnajökuls undrun og lotningu gagnvart dásemdarverki náttúrunnar sem aftur eflir skilning á mikilvægi þess að vernda slíka náttúru. Jökullinn er kvikur -„lifandi“ að vissu leyti. Hreyfist fram á veturna -tekur svo „stökk“ af og til, hleypur. Breytist með árstíðunum -er hrjúfur og hvítur yfir sumartímann, sléttur og jökulblár um djúpveturinn. Afleiðingar hamfararhlýnunar er hvað sýnilegastar í sífellt hraðari bráðnun og hopi jöklanna, sem verða að mestu horfnir eftir 100-150 ár.

Vatnajökull og þjóðgarðurinn sem ber nafn hans er einstakur vegna andstæðra frumkrafta náttúrunnar -elds og íss -sem þar finnast og sérstaklega einstaks samspils þeirra í milli sem er uppspretta jarð- og líffræðilegrar fjölbreytni innan þjóðgarðsins. Þar er unnið að þróun framsýnnar, grænnar uppbyggingar sem tekur mið af skipulegum landnýtingar- og vendaráætlunum. Og jafnframt leitast við að tengja saman náttúru, mannlíf og menningu, finna samlegð á milli náttúruverndar og þróunar samfélaga í grannbyggðum þjóðgarðsins.

Söguþráður og efnistök VATNAJÖKULS verða fyrst og fremst borin uppi af frásögnum fólks, af ólíkum toga, sem þekkir náið til svæðisins: vísindamönnum, listafólki, landvörðum og síðast en ekki síst, bændum sem eiga sér langa fjölskyldusögu í grennd við jökulinn og sumir hverjir skráð sögu jöklabreytinga og jökulhlaupa.

Vatnajökull og nánasta umhverfi hans er mikilvæg, lifandi rannsóknastofa til aukins skilnings á loftslagsferlum; í jarðlögum og jöklum er geymd saga loftslagsbreytinga, sem mikilvægt er að þekkja við mat á líklegum breytingum í framtíðinni. Einn megin drifkraftur og hreyfiafl myndarinnar eru fólginn í því að fara og fylgjast með vísindaleiðöngrum innlendra og erlendra vísindamanna, svo sem jöklahóps Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands og Náttúrustofu Suð-Austurlands.

Við byrjum og opnum heimildarkvikmyndina VATNAJÖKULL við suðvesturhluta jökulsins, við rætur stærsta virka jökulsands heims, Skeiðarársands, í sameinuðum árniði Skeiðarár, Súlu, Núpsvatna og Gýgjukvíslar. Á þessu svæði rís jökullinn á grunni eldfjalla, bæði útdauðra og lifandi. Hann „bræðir saman“ eld og ís, funa og frost, enda er möttulstrókurinn þar undir, helsta lífæð eldvirkninnar á Íslandi. Tungnaáröræfi, norðan Tungnaár allt til Vonarskarðs, eru hrjóstug, eldbrunnin víðerni undir áhrifum frá hinu mikla eldstöðvakerfi Bárðarbungu. Af einstökum náttúrufyrirbærum eru móbergshryggirnir allra merkastir, því þeir finnast hvergi annars staðar á Jörðu. Móbergshryggir og gígaraðir liggja hlið við hlið -myndaðir af eldgosum ýmist undir jökli eða á jökullausu landi; Lakagígar sem höfðu mikil áhrif á gang heimssögunnar í lok átjándu aldar eru dæmi um hið síðarnefnda. Á milli tveggja móbergshryggja liggur hálendisvatnið fagra Langisjór, í dæld sem fylltist upphaflega af jökulvatni en er nú blátært.
Af eldgosum undir jökli á nútíma stafa jökulhlaup sem m.a. bera fram feikn af jökum – brotum úr jöklinum. Þegar þeir jakar bráðna sitja jökulkerin eftir og verða að gróðurvinjum, eins og víða má sjá á Skeiðarársandi.

Á Grímsfjalli við Grímsvötn og víðar, hefur Jöklarannsóknafélag Íslands reist skála. Þessi aðstaða, sem og tilurð félagsins sem slík, er einstök, þar sem áhugafólk um jökla og sérfræðingar sameinast í upplifun- og rannsóknum sínum. Í Vonarskarði er háhitasvæði í um 950-1100 m.y.s. með óvenjulega fjölbreyttum og gróskumiklum gróðri, auk örvera sem hvergi annars staðar hafa fundist. Bárðarbunga er megineldstöð, í miðju „heita reitsins“ á Íslandi, sem skaut út undan sér í gegnum Dyngjujökul, berggangi og eldgosi sem færði okkur Holuhraun 2014-2015. Kverkfjöll eru mikil megineldstöð við norðurbrún Vatnajökuls og þriðji hæsti fjallbálkur landsins á eftir Öræfajökli og Bárðarbungu. Eitt öflugasta háhitasvæði landsins er að finna í Kverkfjöllum. Í ánni sem rennur niður í gegnum jökulinn hafa myndast margir íshellar og hellakerfi. Og djúpt í ævintýrabláma hellanna er að finna á milli íslaga alls konar ískristalla, örverur, ösku og gjóskuútfellingar. Með rannsóknum á samspili elds og íss á Íslandi fæst aukinn skilningur á sambúð íss og eldvirkni á öðrum hnöttum, t.d. Mars og Ío, einu tungla Júpíters.

Herðubreiðarlindir er gróðurvin austan við Herðubreið, fjalldrottningu Íslands! En þar í skjóli Lindár er gríðarstórt lindarsvæði; 7 af 10 stærstu lindasvæðum heims er að finna á Íslandi. Brúarjökull er stærsti skriðjökull Vatnajökuls. Hann er þekktastur fyrir gríðarleg framhlaup sem í honum verða á 80-100 ára fresti, en þau eru mestu framhlaup sem um getur á Jörðinni og hleypur jökullinn þá fram um 8-10 km á nokkrum mánuðum. Hamfarahop og hliðarverkun lóna í Hoffells- og Heinabergsjökli er vísindavettvangur Náttúrustofu SA-lands, ásamt því að kortleggja dýpi og botn allra jökullóna Suðurjökla Vatnajökuls.

Mestu öfgar íslenskrar jöklaveraldar eru við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi, en þar er einstakur rannsóknarvettvangur alveg við þjóðveg 1, hringveginn. Við sjáum jöklahóp HÍ stika um jökulinn með íssjá og alls konar önnur mælitæki, það eru Hrafnhildur Hannesdóttir, Guðfinna Aðalgeirsdóttir og Finnur Pálsson, jöklafræðingar sem stjórna þessum rannsóknum. Breiðamerkurjökull hefur hopað hlutfallslega mest allra jökla á Íslandi og svæðið fyrir framan hann, Breiðamerkursandur, sem var nær allur undir jökli um 1890, það er nú mótaður af jarðfræðilegu ferlum sem hopunin jökulsins leysir úr læðingi. Þar hefur skapast mikill fjöldi ólíkra landforma sem að jökullinn hefur skilið eftir sig. Þessi landform mynda svo aftur forsenduna fyrir búsvæðamyndun og síðan tilurð nýrra vistkerfa fyrir lífverur.

Jöklar í sumarbúningi og jöklar í vetrarbúningi eru alveg sitthvor hluturinn. Á sumrin er jökullinn hrjúfur og hvítur, með svarta og sprungna jökulsporða en á veturna verða jöklarnir himinbláir, tærir og sléttir og endurspegla þá miklu frekar margbreytilegt ljósið, sjónarspilið, frá himinum. Þegar maður gengur yfir jökul að vetrarlagi er oft eins og maður sé með regnboga undir fótunuum. Eða þá alveg hyldjúpan bláan lit, eða ljósbláan, grænan eða gulan. Það er einstök upplifun, að vera innan um jökla að vetrarlagi. Íshellar Breiðamerkurjökuls eru einstaklega falleg smíð, þar getur maður labbað inn í jökulinn og undir hann, verður umlukinn jökulbláma og ísskúlptúrum af öllum stærðum og gerðum..
Birkibolir úr fornum skógi hafa komið undan Breiðamerkurjökuli, leifar skógs sem jökullinn klófesti fyrir um 3.100 árum.

Til eru ritaðar heimildir um þennan mikla skóg í annálum og kirkjubókum, sem og í Íslendingasögunum. Má í því sambandi einkum nefna einn frægasti fornkappa Íslendingasagnanna, Kára Sölmundarson, en hann var einmitt bóndi á Breiðamörk í Suðursveit samkvæmt Njálssögu; höfuðból sem hvarf undir Breiðamerkurjökul á 16. eða 17. öld. Við munum myndgera og notast við málverk Alice Watterson, fornleifafræðings og listmálara, ásamt gömlum kortum og hágæða loftmyndir frá Landmælingum Íslands, við endurgerð hins forna landslags. Með rannsóknum Snævarrs Guðmundssonar, jöklajarðfræðings, og Þóru Ellenar Þórhallsdóttur, grasafræðings, getum við leitt líkum að því að á Breiðamerkursandi/sveit hafi verið gríðarstór birkiskógur.

Í Skaftafelli er stórfengleg náttúrufegurð, svo sem óviðjafnanlegt útsýni til hæsta fjalls landsins, Öræfajökuls, útvörð Vatnajökuls í suðri, með alla sína skriðjökla. Það þarf að fylgjast með afkomu þeirra, tekjur og gjöld, einnig að mæla og kortleggja jökullónin fyrir framan þá, en þau hafa stækkað gífurlega frá 1995 og flest þeirra eru nú 200-270 m djúp og ná langt niður fyrir sjávarmál.

Inn á milli rannsóknaferða, skjótum við inn heimsóknum til listamanna, landvarða og bænda; Hvernig hefur sambúðin og nábýlið við jökullinn verið í gegnum tíðina? Steinunn Sigurðardóttir, skáld, segir okkur frá björtum sjónarhóli barnsins sem heillaðist af hvítu eilífðarfjallinu og leiðin til óvissu breytinga samtímans í ástarjátningu til lands og jökuls. Heiða Guðný Ásgeirsdóttir – fjalldalabóndinn – er sannkallað náttúrubarn á Ljótarstöðum, efsta bæ í Skaftártungu. Jafnframt því að sinna fimm hundruð fjár hefur hún barist fyrir tilveru sinni og sveitarinnar, varið landið, svo öllu verði ekki fórnað fyrir fáein megawött; hún er „nútíma kona og kvenhetja“. Innsæi og lífsstíll, kallast á við ástina á landinu. Við Herðubreiðalindir hittum við Andra Snæ Magnason, rithöfund; „Stóru breytingarnar næstu 100 árin, snúast um vatnsbúskap Jarðar. Jöklar bráðna, yfirborð sjávar rís og veðrakerfi heimsins fara úr jafnvægi“. En bókin Um tímann og vatnið, er óður hans til alls sem lifir, hefur lifað og mun vonandi lifa ef…?

Á Fagurhólsmýri í Öræfasveit býr Eva Bjarnadóttir, myndlistarkona. Hún ólst upp í Reykjavík, en eftir nám í kjólasaumi og textíl, lá leiðin til Amsterdam. Gamla sláturhúsið við flugvöllinn á Fagurhólsmýri er núna vinnu- og gestastofa, þar sem Eva vinnur við listsköpun sína í beinni sjónhendingu til Öræfajökls. Þá hittum við Þrúðmar Þrúðmarsson, bónda á Hoffelli við Hoffellsjökul. Hann lýsir hvernig sambúðin hefur breyst, -þessi gamli þrjótur er allt í einu orðin hágæða ferðamanna aðdráttaafl! Einnig heimsækjum við ung hjón, Írisi Ragnarsdóttur Pedersen og Árna Stefán Haldorsen, sem reka fjallaskóla í Öræfum, og hjónin Einar Rúnar Sigurðsson og Matthildi Unni Þorsteinsdóttur sem fara með ferðamenn í fuglaskoðun á sumrin en í jöklaferðir á veturna. Vilt- og ósnert náttúran er hugarfóstur skáldsins og rithöfundarins Hauks Ingvarssonar. Strax í æsku byrjaði sýn hans og ást til náttúrunnar að taka á sig alls konar myndir í formi nýrra glugga um tilvist okkar og hvernig samtíminn mun taka á móti framtíðinni, -og hvert munu sporin liggja?

Á Hala í Suðursveit búa hjónin Þorbjörg Arnórsdóttir og Fjölnir Torfason og reka menningartengda ferðaþjónustu auk Þórbergsseturs. Þau fræða okkur um hvernig landslagið hefur breyst og hvernig örnefni og saga lifnaðarhátta hefur varðveist í útjaðri Breiðamerkursands við eyðibýlið Fell, undir Fellsfjalli. Og síðast, en ekki síðst skoðum við í ljósmyndagallerí Ólafs Elíssonar listamanns, en hann hefur heillast af jöklum og m.a. útbúið „parmyndir“ sem sýna loftmyndir af íslenskum jöklum teknar frá sama sjónarhorni, en með 20-30 ára tímabili!

Einnig munum við kynnast fjölþættum störfum þess fólks -landvarða, sérfræðinga og þjóðgarðsvarða -sem gætir Vatnajökulsþjóðgarðar, verndarsvæðis sem sett var á Heimsminjaskrá UNESCO árið 2019. Við hittum t.d. Kára Kristjánsson við Tjarnargíg í Laka þar sem hann hefur með mikilli vinnu og þolinmæði náð að græða sár þessa ofurviðkvæma land með tilflutningi á mosa. Einnig kynnumst við fræðslustarfi landvarða m.a. í gegnum náttúrutúlkun á vettvangi. Nína Aradóttir er landvörður og jafnframt að ljúka doktorsnámi í jöklajarðfræði við H.Í. hún segir okkur hvernig mismunandi áherslur starsvettvangs hennar er miðlað til vísindasamfélagsins og einnig til gesta Vatnajökulsþjóðgarðar.

Hop Vatnajökuls -tæring hans -er skýr vísbending um raunveruleika hnattrænna loftslagsbreytinga. Upplýsingar um stöðu mála í fortíð, nútíma og framtíð eru lykillinn að skilningi á loftslagsbreytingum. Í myndinni munum við leitast við að lýsa sögu Vatnajökuls frá lokum síðustu ísaldar (ca. 8.000 f.Kr.) til landnáms Íslands (ca. 874 e.Kr.), næst rekjum við framvindu mála að upphafi og endalokum hinnar svökölluðu „Litlu ísaldar“ og þaðan frá til dagsins í dag. Loks reynum við að myndgera framtíðina, sýna hver líkleg framvinda -og mögulega endalok -þessarar sögu verða. Vísindamenn hafa búið til reiknilíkön um hver verður líkleg þróun jökulhopins á 100-200 ára tímaási. Út frá því búum við til spálíkan eins og við teljum að atburðarásin verði frá 2024 til 2124 og miðum við að hnattræn hlýnun af mannavöldum sé innan við 1,5°- 2°C á þessu tímabili, auk þess sem við skoðum hver útkoman yrði ef hlýnunin verður 3° eða 4°C (sbr. nýjustu sviðsmyndir IPCC).

Auðveldlega er hægt að setja upp tímaás með nokkuð ábyggilegum hætti frá Landnámi til loka Litlu ísaldar, um 1890. Þá höfum við landmælingakort danska herforingjaráðsins, gerð 1903-04, sem sýna okkur með mikilli nákvæmni stöðu jökulsins, útlínur og hæð þegar hann náði mestri framrás. Einnig höfum við ritaðar heimildir, ljósmyndir og önnur vísindagögn, einnig sænsk/íslenska jöklarannsóknaleiðangrinum 1936-39, en leiðangursstjóri hans var hinn sænski Hans W. Ahlmann og nemi hans og aðstoðarmaður var Sigurður Þórarinsson, fyrsti íslenski jöklafræðingurinn.
Í nútíma er það „íssjá“ Dr. Helga Björnssonar, jöklafræðings, og lífsstarf hans sem leggur hornsteininn að heildarmyndinni og með sjónrænum myndskeiðum og reiknilíkönum, drögum við fram og teiknum allsherjar atburðarrás frá árinu 874 > 1890 > 2024 > 2124. Þessi atburðarás varðar ekki aðeins Íslendinga, heldur mannkyn allt. Þróun loftslagsmála á næstu öld ræðst af ákvörðunum og viðbrögðum okkar í dag. Við ræðum við Hjalta Má Björnsson, lækni og formann Félags lækna gegn umhverfisvá -hvers vegna eru læknar farnir að tjá sig um ástand náttúrunnar og loftslagsmálin?

Við ræðum líka við unga aðgerðarsinna, þar á meðal Gunnhildi Fríðu Hallgrímsdóttur -hvað getum við gert til þess að halda -og blása nýju lífi -í vonina um heim sem ekki hefur algerlega umturnast af völdum hamfararhlýnunar? Einnig hittum við unga Hornfirðinga – Arndísi Ósk Magnúsdóttur, lögfræðinema frá Hólmi á Mýrum, og Tómas Nóa Hauksson, nema í kvikmyndagerð frá Höfn – hvernig lítur tæring jökla út á heimavelli?

Og í lokasenu myndarinnar þá sjáum við Elínborgu Pálsdóttur (f. 1923) bóndakonu, þar sem hún stendur við árbakkann við Jökulsárbrú á Breiðamerkursandi og leiðir litla hnátu. Þegar Elínborg var 10 ára, þá náði Breiðamerkurjökull að þeim stað, þar sem þau standa núna á, þ.e.a.s. Jökulsárlón var ekki til. Á einni mannsævi hefur jökullinn hopað um 8-9 km og þegar barnabarnabarn Elínborgar nær hennar aldri þá verður Jökulsárlón líklega orðið að stærsta vatni Íslands u.þ.b. 20-25 km langt og jökullinn að mestu horfinn.

Fornir Birkibolir Við Breiðamerkurfjall

(Heimildarkvikmynd 30´)

HANDRIT & FRAMLEIÐSLA:
Gunnlaugur Þór Pálsson og Alice Watterson
RÁÐGJAFAR:
Snævarr Guðmundsson, Náttúrustofu suðausturlands, Ólafur Eggertsson, Skógræktinni og Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Raunvísindastofnun HÍ.
Samvinnubakhjarlar:
Þórbergssetur Hala, Suðursveit, Náttúrustofa Suð-Austurlands, Rannsóknasetur HÍ Höfn í Hornafirði og Sjónfilm ehf.
LEIKSTJÓRI:
Gunnlaugur Þór Pálsson

FORNIR BIRKIBOLIR VIÐ BREIÐAMERKURFJALL
segir frá fundi birkitrjábola úr fornum skógi sem hafa fundist í setlögum við Breiðamerkurjökull, fyrst 2017 sjá https://www.ruv.is/frettir/innlent/drumbar-ur-fornum-skogi-komu-undan-jokli og svo núna í lok febrúar 2023.

Breiðamerkurjökull er að hopa og skilar þessum trjádrumbum sem hann klófesti fyrir um 3.100 árum síðan og jökullinn hefur varðveitt vel í sínum ískalda faðmi. Með rannsóknum Snævarrs Guðmundssonar, jöklajarðfræðings, auk aðkomu Ólafs Eggertssonar, jarðfræðingi hjá Skógræktinni og Þóru Ellen Þórhallsdóttur, grasafræðingi hjá Raunvísindastofnun HÍ, getum við leitt að um er að ræða að á Breiðamerkursandi/sveit hafi verið gríðarstór birkiskógur. Og þetta er líka einstaklega áhugavert því þetta sýnir okkur hvernig þetta var áður en menn fluttu hingað og þá hafa verið greinilega miklir skógar á Íslandi.

Rannsóknir á trjádrumbunum munu auka skilning okkar á öllum aðstæðum á Suðausturlandi fyrir landnám. Við getum leitt að því að hinn forni Breiðamerkurbær hafi staðið við vöxtulegan skóg og öll gróðurskilyrði verið mjög góð. Við getum einnig fengið innsýn í þær miklu loftslagsbreytingar sem hafa átt sér stað á nútíma, -síðustu 10.000 árum eftir að ísöld lauk og jökullinn hvarf. Þannig að þessi fundur getur leitt margt áhugavert í ljós. Það er gaman að fá svona sannanir fyrir því og það er hægt að staðfesta með haldbærum gögnum að Ísland var skógi vaxið á milli fjalls og fjöru fyrir landnám.

SÖGUÞRÁÐUR, MARKMIÐ OG EFNISTÖK:
Sagan og framvinda söguþráðar verður sögð með viðtölum við: SG, ÓE, ÞEÞ, AW o.fl. Við munum sýna og staðsetja vettvanginn, þ.e. Breiðamerkursand í núverandi ásýnd auk þess að fara á þá staði þar sem birkitrjásdrumbarnir fundust. Grunnhugmyndin er samt sem áður að myndgera vettvanginn, landslagið og alla ásýnd þess. Við byrjum á að skifta tímaásnum upp í fjögur aðal ártöl:

(A) árið 1100 f. Krist/fyrir 3.100 árum síðan.

(B) 874 e. Krist/Landnám Íslands.

(C) 1890/lok Litlu ísaldar.

(D) 2024/25.

Það verður alfarið í höndum Alice Watterson (-sjá portfolio) að teikna og mála og myndgera Breiðmörk þ.e. bóndabæinn og sveitina umvafða Öræfajökli – Breiðamerkurfjalli – Máfabyggð – Breiðamerkurjökli – Esjufjöllum – Þverárfjalli – Þverársfjallaeggjum -og Fellsfjalli.

Öll þessi kennileiti í þessum frábæra dal/“sandi“ og Breiðamerkurskógur teigir sig upp með hlíðum sveitarinnar og líklega alveg að jökuljaðri hans, eins og við leiðum líkur að. Við myndgerum stóru/víðu myndina og „fljúgum“ yfir allt svæðið og reynum að átta okkur á öllu þessum nýju þáttum í landslaginu, -auk þess að taka stutt millihopp til dagsins í dag, t.d. ekkert Jökulsárlón o.s.frv.

Hvernig er þetta sýnerí t.d. í samanburði við „Drumbabót“ sjá https://www.visir.is/g/2017226701d í Fljótshlíð? En þar tókst að aldurgreina Kötluhlaup mjög nákvæmlega við árið 822 og það er vel fyrir Landnám Íslands.

Hér eru svo Vídeó-linkar á stuttmyndir sem AW hefur gert:

https://www.youtube.com/watch?v=X8-yLvosM1g&ab_channel=DigVentures , Burghead https://www.youtube.com/watch?v=X8-yLvosM1g&ab_channel=DigVentures , Dundee´s Law https://www.youtube.com/watch?v=SFsQFR5Hqns&ab_channel=LeisureandCultureDundee

Við ráðgerum að myndgera breytingarnar frá (A) til (B) til (C) og loks til (D) og við stoppum við hverja „aðalvörðu (a-b-c-d)“. Enn munum við notast við myndgerð Alice Watterson, ásamt að notast við gömul kort og hágæða loftmyndir frá Landmælingum Íslands. Við eigum því láni að fagna að til eru ritaðar heimildir í formi annála og kirkjubóka og hafa geymst hvort sem er í munnlegri geymd og svo í rituðum heimildum allskonar og ekki má gleyma sjálfum Íslendingasögunum, og í því sambandi þá er einn frægasti fornkappi Íslendingasagnanna, Kári Sölmundarson og aðalhetja Brennunjálssögu, eftir að Gunnar á Hlíðarenda er feldur, en hann var einmitt bóndi á Breiðamörk.

Við munum flétta inn í tímalínu söguþráðar myndarinnar, hvernig Sigurður Þórarinsson, jarðfræðingur, tengdi saman gosöskulagsrannsóknir sínar inn í fornleifarannsóknir og hvernig aðferðir íslenskra fornleifafræðinga breytust og hvernig hinn íslenski tímaás, studdur öskulagslögum í jarðvegsseti er algjörlega einstakur á heimsvísu. Þá má ekki gleyma þætti Sigurðar hvernig hann tengir saman hvernig lofthitastig breytist frá Landnámi til nútíma veðurrannsókna dagsins í dag og allt meira og minna byggt á rituðum lýsingum og gögnum sem spannar þetta tímabil.

Við munum sýna og myndgera breytingar (C) til (D) með þrívíddar líkönum, byggða á gömlum kortum Knoffs og einnig dönsku Herforingakortin og klippa í lifandi dróna myndskeið og útfæra þær landslagsbreytingar sem við höfum séð t.d. í „After Ice“ sjá https://vimeo.com/504355699 og „Hinn stóri samhljómur sandsins“ sjá https://vimeo.com/564718553 og einnig Jöklaland, -veröld breytinga frá 2016 sjá https://vimeo.com/317852409 sem Sjónhending framleiddi báðar tvær.

NIÐURLAG:
Íbúar A-Skaftafellssýslu og sérstaklega bændur í Suðursveit þekkja nábýlið við Vatnajökull best og hafa oft í gegnum tíðina þurft að samlaga lifnaðarhætti sína að hverfulli náttúru jökulsins. En hér kveður við nýjan tón, þessi heimildakvikmynd mun varpa breyttu og nýstárslegu ljósi á ásýnd hinnar fornu „Breiðamerkursveitar“ umvafin háum fjöllum og litlum sætum jökli langt í burtu og Breiðamerkurskógur og grænar grundir allt um kring! Hvernig var landslagið? Hvenær, hvaða ár var þetta? Hvenær breytist þetta svo allt saman? …-og hvers vegna? …

Myndin mun efla og marka einstaka sérstöðu Vatnajökulsþjóðgarð um hvernig má myndgera forna sýn landslagsins fyrir rúmum 3.100 árum síðan, eins og við getum leitt líkum að í ljósi hinna fornu birkidrumba sem hafa nú komið undan Breiðamerkurjökli.
Lífsins klukka og lífsins vatn kvíslast um klappir og svarta sanda og flóran dafnar og blómstrar í hlýjum geislum sólarinnar í dag, alveg eins og hún gerði fyrir löng, löngu síðan!

TÍMAÁÆTLUN:
Það er mjög líklegt að tímarammi verkefnisins muni spanna 12 -18/24 mánuði, þar sem við ráðgerum að vinna þetta verk samhlið öðrum verkefnum sem Sjónhending er með á prjónunum. Næsta víst að útimyndatökur yrðu sumar/haust 2024, en málverkagerð og þrívíddar grafík, eins og verða vill þegar vel stendur á. Nú vonandi þá verða sýni úr birkidrumbunum send sem fyrst í aldursgreiningu, en það er að einhverju leiti háð fjármagni frá hinu opinbera o.s.frv.

FJÁRMÖGNUN OG HELSTU SAMSTARFSAÐILAR:
Fjárhagsáætlun og fjármögnun verkefnisins er alfarið byggt á eigin framlögum Sjónhendingar/Sjónfilms og samstarfsaðilum, sem eru: Kvískerjasjóði, Náttúrustofa Suð-Austurlands c/o Snævarr Guðmundsson, Rannsóknasetur HÍ Höfn í Hornafirði c/o Þorvarður Árnason, Þórbergssetur c/o Þorbjörg Arnórsdóttir og Sjónhending/Sjónfilm ehf c/o Kristín Björg Þorsteinsdóttir og Gunnlaugur Þór Pálsson.

Enn og aftur er aðalatriði og markmið myndgerðarinnar, að koma skikki og skilningi á sjónrænu hliðar jöklabreytingana og auka skilning okkar á eðli loftslagsmálana nú á 21. öldinni.

Víðerni Íslands

(Hug- og tilraunaverk 60´)
Verkefni á byrjunarstigi og í nánari þróun.

Stuðlaberg

(Heimildakvikmynd 52´)
Verkefni á byrjunarstigi og í nánari þróun.

Sjónhending
error: Efnið er varið !!